154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

RÚV á TikTok og fréttaskýring um lóðamál olíufélaganna.

[15:45]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrirspurnina og vil segja að við búum í samfélagi þar sem miklar breytingar eru að eiga sér stað á stuttum tíma með tilkomu samfélagsmiðla. Við erum farin að miðla fréttum og öðru slíku með öðrum hætti en áður hefur verið gert og ég tel að það sé eðlilegt að fjölmiðlar þrói þjónustu sína í takt við þær breytingar sem hafa átt sér stað í samfélaginu. Við sjáum það víða erlendis að ríkismiðlar jafnt sem einkamiðlar hafa verið að þróa þjónustu sína í takt við breytta tíma, m.a. með miðlun efnis á TikTok. Þarna er verið að ná til yngri kynslóða þar sem þær nota þetta samskiptaform talsvert vel og mikið. Ég verð að segja að mér finnst ekkert óeðlilegt að RÚV nýti TikTok til að mynda til þess að miðla fréttum til ungs fólks.

Ég líki þessu stundum svolítið við það þegar við vorum með útvarp og svo vorum við komin með sjónvarp. Við myndum einhvern veginn vilja að við hefðum tekið upplýsta ákvörðun um það á sínum tíma að við værum með Ríkisútvarp og að það gæti þróað sig í takt við breytta tíma. Mér finnst einhvern veginn skorta svolítið á þann skilning að Ríkisútvarpið þurfi eins og aðrir miðlar að þróa sig. Hins vegar vil ég líka segja að það er auðvitað mjög mikilvægt að Ríkisútvarpið gæti hófs varðandi auglýsingamarkaðinn. Það er nú í vinnslu, þ.e. nálgun Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaðinn, (Forseti hringir.) til þess að breyta því hvernig vera þess er á auglýsingamarkaði.